Til að framleiða plast eru notuð efni eins og kol, gas, salt og að mestu leyti olía. Eins og svo margt annað sem við erum að nýta frá jörðinni þá eru olíuauðlindir okkar ekki endurnýjanlegar. Sem þýðir að á endanum mun sú auðlind klárast. Talað er um að það þurfi um 2 kg af olíu til að framleiða 1 kg af plasti en það skýtur frekar skökku við að vera að eyða þessari dýru olíuauðlind okkar í efni sem síðan er hent eftir aðeins eina notkun.

Eiginleikar plasts

Eiginleikar plasts eru þannig að endingartími þess er yfirleitt nokkuð mikill, það er slitsterkt svo það hverfur ekki eða eyðist heldur brotnar í smærri og smærri hluta í náttúrunni. Einnig er algengt að dýr bíta í plastrusl eða naga það í sundur í smærri hluta. Plast sem fer ekki réttar leiðir til endurvinnslu eða förgunar lendir því oft úti í náttúrunni (höfum, ám og vötnum) þar sem það getur valdið skaða á lífríki náttúrunnar. Hluti plasts er létt efni og flýtur sem gerir það að verkum að það getur borist um hundruði kílómetra og valdið þannig skaða langt frá upprunastað sínum.

Plastflákar í hafinu

Gríðarstórir flákar af plasti hafa þegar myndast í Kyrrahafi, Atlantshafi og Indlandshafi sem hafstraumar hafa borið þangað. Plastið er síðan fast þar í þessum gríðarstórum hringstraumum sem þar eru. Til þess að flækja málin enn frekar þá er plasti oft bætt út í ýmsar hreinlætis- og snyrtivörur s.s. tannkrem og húðskrúbba en þessar smáu agnir fara oftar en ekki beina leið út í sjó þar sem frárennsliskerfin okkar eru fæst með búnaði til að ná þeim. Því má segja að stór hluti af því plasti sem framleitt hefur verið frá upphafi sé ennþá einhvers staðar til.

Project Image
Project Image
Project Image
Project Image
 

Kaupum matvörur án umbúða þar sem það er hægt

 

Mikið af þeim umbúðum sem við notum eru óþarfi. Við getum t.d. minnkað plastnotkun með því að setja epli og appelsínur eða grænmeti beint í innkaupakörfuna, því við þvoum þau hvort sem er heima áður en þau eru borðuð. Einnig ættu framleiðendur að draga úr óþarfa einnota umbúðum. Oft má koma með eigin ílát í verslanir og mælt er með því að sniðganga frauðplast, enda er það ekki endurvinnanlegt, þó að það eigi einnig að fara í plasttunnuna.