Landvernd hvetur félagsmenn sína til að skrifa undir áskorun sem sendir sjálfkrafa tölvupóst á alla þingmenn um leið og áskorunin hefur verið undirrituð.
Markmið aðgerðanna er að vekja athygli á því ófaglega ferli sem meirihluti atvinnuveganefndar leggur til með því að færa fjóra virkjanakosti úr biðflokki í virkjanaflokk, án faglegrar meðferðar verkefnastjórnar rammaáætlunar.
Aðferð sem þessi hefur ekki verið notuð af Landvernd áður, en við teljum mikilvægi þess að skilaboðin nái eyrum alþingismanna svo mikla að ekki verði hjá þessu komist.
Skrifaðu undir á askorun.landvernd.is og hvettu aðra til að gera slíkt hið sama. Alþingismenn verða að virða fagleg ferli
Eftirfarandi texti er sendur Alþingismönnum:
Kæri Alþingismaður!
Ég skora á þig að hafna nýtilkominni tillögu meirihluta atvinnuveganefndar um að færa fjórar virkjanahugmyndir úr biðflokki í virkjanaflokk (nýtingarflokk) rammaáætlunar. Tillaga meirihlutans er aðför að lýðræðislegum og faglegum vinnubrögðum sem Alþingi sjálft hefur sett lög og reglur um.
Með tillögunni er gengið þvert gegn anda laganna um rammaáætlun og dregið úr möguleikum á friði um virkjanamál hér á landi. Ef tillagan verður samþykkt þýðir það í raun að þingmenn geta lagt fram hvaða tillögu sem er án faglegrar umfjöllunar sérfræðinga rammaáætlunar. Er það sá ófriður sem þú vilt sjá í kringum virkjanamál á Íslandi?
Ég vil ekki láta geðþóttaákvarðanir ganga framar faglegum sjónarmiðum. Ég treysti því að þú, þingmaður góður, sért sammála mér um það og hafnir tillögu meirihluta atvinnuveganefndar þegar hún kemur til kasta Alþingis. Í húfi er fimmtán ára faglegt ferli rammaáætlunar og sátt um leikreglur hennar.
Virðingarfyllst
Tögg
Vista sem PDF