Loftslagsbreytingar eru stærsta áskorun samtímans,
Loftslagsbreytingar eru stærsta áskorun samtímans, hvort sem horft er til lífríkis, efnahags eða samfélaga manna. Hlýnað hefur á Jörðunni um 0,85°C að meðaltali á síðustu 130 árum og gera spár vísindamanna ráð fyrir frekari hækkun hitastigs á komandi áratugum.
Ef þjóðir heims takast ekki strax á við vandann af festu mun hlýnunin valda miklum breytingum á heiminum eins og við þekkjum hann í dag.
Jöklar munu bráðna, sjávaryfirborð hækka, sjórinn súrna, styrkur fellibylja aukast, tegundir lífvera hrekjast af búsvæðum sínum, mörg þurr svæði í heiminum munu þorna enn frekar og svona mætti lengi telja.
Efnahagsleg og samfélagsleg áhrif þessa yrðu gífurleg og pólitískur stöðugleiki minnka með hættu á frekari stríðsátökum.
Parísarsamkomulagið veitir þó von um að samhent átak þjóða heims megi sporna gegn þessari þróun. Landvernd vill að þjóðir heims haldi hlýnun jarðar innan við 1,5°C miðað við iðnbyltingu og telur að Ísland verði að stefna að kolefnishlutleysi hið allra fyrsta. Samtökin láta sig loftslagsmál miklu varða og beita sér á sviði stefnumótunar ríkis og sveitarfélaga. Nær öll langtímaverkefni samtakanna varða loftslagsmál með einum eða öðrum hætti, en sérstaklega má nefna Loftslagsverkefni Landverndar með sveitarfélögum, Græðum Ísland, Matarsóunarverkefnið og Vistheimtarverkefni með skólum.