Fréttir

Aðalfundur hafinn: fimmföldun félagsmanna

Guðmundur Hörður Guðmundsson, formaður Landverndar setti aðalfund Landverndar í fundarsal Ferðafélags Íslands nú skömmu eftir hádegi í dag. Í máli formanns kom fram að nýliðið starfsár hefði markað þáttaskil í starfsemi Landverndar, en félagsmönnum hefði fjölgað um 230% á árinu og fimmfaldast á síðustu tveimur árum. Og Guðmundur Hörður setti markið hærra: „Ef við miðum Landvernd við norræn systursamtök og setjum okkur það markmið að félagsmenn verði sama hlutfall af þjóðinni og hjá stærstu náttúruverndarsamtökunum í Svíþjóð og Danmörku þá þyrftu félagsmenn í Landvernd að vera á milli 6.500 og 8.000. Það er verðugt markmið sem ég legg til að við stefnum að á næstu misserum og árum.“

Guðmundur Hörður fór yfir starfsemi samtakanna á nýliðnu starfsári. Nýju verkefni um vernd hálendisins, Hálendið – hjarta landsins, var hleypt af stokkunum í Þjórsárverum í september 2013. Markmið verkefnisins er að vekja athygli á fyrirhuguðum framkvæmdum á hálendi Íslands og gefa fólki kost á að taka undir kröfu Landverndar á veraldarvefnum um að hálendinu verði hlíft. Nú hafa safnast um 6.000 undirskriftir frá 70 löndum, en verkefnið hefur bæði íslenska og enska vefsíðu (hjartalandsins.is og heartoficeland.org). Guðmundur Hörður sagði einnig frá því að Ferðaklúbburinn 4x4, Ferðafélag Íslands, Samtök útivistarfélaga og Ferðafélagið Útivist gerðust aðilar að verkefninu með formlegum hætti í gær. Á bakvið þessi félög og samtök standa um þrjátíu þúsund félagsmenn og  því er hjarta landsins orðið heljarmikið afl í baráttunni fyrir vernd hálendisins. Guðmundur Hörður sagði: „Það er eins og einn góður félagi skrifað á netinu í gær – þegar hjörtu 30 þúsund félaga slá í takt – þá er ekkert sem getur stöðvað okkur.“

Guðmundur Hörður nefndi einnig áfangasigra í baráttunni um vernd Mývatns og Laxár, en Landsvirkjun varð við þrýstingi Landverndar og fjölda fólks og tók undir kröfuna um að endurgera ætti umhverfismat Bjarnarflagsvirkjunar. Guðmundur Hörður fór einnig yfir Gálgahraunsmálið og gagnrýndi stjórnmálamenn, stjórnsýsluna, lögregluna og dómstóla fyrir aðkomu þeirra að málinu. Þá fór formaðurinn yfir baráttu Landverndar varðandi framkvæmdir í raforkuflutningskerfinu og vinnu Landverndar að jarðstrengsmálum, en samtökin létu m.a. vinna úttekt á kostnaðarmuni jarðstrengja og loftlína á háum spennustigum. Þá nefndi Guðmundur Hörður sérstaklega vinnu að langtímaverkefnum Landverndar, grænfána, bláfána og jarðhitaverkefni samtakanna og sagði frá því að tveimur nýjum langtímaverkefum var hleypt af stokkunum á síðasta starfsári, annað samstarfsverkefni við sveitarfélög um loftslagsmál og hitt á sviði landgræðslu og umhverfismenntar með grunnskólum á Suðurlandi.

Skýrsla stjórnar Landverndar má finna hér og í viðhengi. 

arsskyrsla2014 LOKA
Tögg
IMG_3006     IMG_3011    

Vista sem PDF

 

Stöndum vörð um náttúru Íslands

Taktu afstöðu og vertu með!

Leita í fréttumÞátttaka í ákvarðanatöku

2020-Halendi-islands-Chris-Burkard.jpg
Landvernd styður hugmyndir um Hálendisþjóðgarð og Þjóðgarðastofnun
Landvernd styður hugmyndir um Hálendisþjóðgarð og Þjóðgarðastofnun en nauðsynlegt er að koma í veg fyrir uppbyggingu orkuvera og miðlunarlóna á hálendinu enda skerðir það verðmæti svæðisins og er í trássi við náttúruverndarlög og alþjóðlegar skilgreiningar á þjóðgörðum.