Fréttir

Athugasemdir vegna draga að stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Friðlandið á Hornströndum

Silverkey - eigin skrá, CC BY-SA 3.0     Votlendi í Hornvík

Landvernd fagnar gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir Friðlandið á Hornströndum, en hefur ýmsar athugasemdir við framlögð drög Umhverfisstofnunar.

 

Meginathugasemd samtakanna snýr að notkun verndarflokka IUCN. Gert er ráð fyrir að allt svæðið falli í flokk Ib, sem hefur svipaða skilgreiningu og “Óbyggð víðerni” í náttúruverndarlögum nr. 60/2013 og lýtur ströngum friðunarákvæðum. Aftur á móti virðist stjórnunar- og verndaráætlunin ekki taka mið af þessum verndarflokki í áætlun sinni á öllu svæðinu líklega vegna árekstra við samninga við landeigendur eða aðalskipulag sveitarfélagsins. Lausn Umhverfisstofnunar á þessum vanda er helst sú að skipta Ib svæðinu í fjögur undirsvæði þar sem mismunandi reglur um hunda og hópastærðir ferðamanna gilda en enginn munur er á landnotkun.

 

Þessa nálgun telur Landvernd ekki ganga upp. Að mati samtakanna væri eðlilegra  að skipta svæðinu í tvo eða fleiri verndarflokka, samkvæmt náttúruverndarlögum nr. 60/2013[1] og standa við þá flokkun í stjórnunar- og verndaráætluninni.  Með lítillega breyttri svæðisafmörkun gæti svæði B, sem á væntanlega eftir að stækka mikið til suðurs, skv. nýlegum tillögum Náttúrufræðistofnunar Íslands, fallið vel að skilgreiningum um óbyggt víðerni  (46. gr. nv.laga; IUCN Ib) og svæði A (með og án hunda) sem landslagsverndarsvæði (50. gr. nv.laga; IUCN V).

 

Verndarflokkar (IUCN og náttúruverndarlög nr. 60/2013)

Samkvæmt skilgreiningu IUCN[2] eru svæði Ib (Wilderness areas) fyrst og fremst náttúrusvæði sem halda upprunalegum einkennum, eru án varanlegrar eða verulegrar búsetu manna og vernduð til að viðhalda upprunaleika. Önnur markmið eru m.a. að veita almenningi aðgang án þess að ganga á víðerniseiginleika svæðisins; að gera frumbyggjum kleyft að viðhalda sjálfsþurftarbúskap sem ekki gengur gegn ákvæðum friðlýsingarinnar; að vernda menningarleg og andleg verðmæti/gildi; að leyfa fræðaslu og rannsóknir sem ekki hafa neikvæð áhrif og ekki er hægt að stunda utan friðlandsins.

 

Það sem aðskilur svæði Ib frá öðrum svæðum, skv. skilgeriningu IUCN, er m.a. að svæðin eiga ekki að innihalda nútíma mannvirki (undirstrikanir Landverndar), þ.m.t. vegi, raflínur, fjarskiptamannvirki, o.m.fl.  Þótt viðvera manna sé ekki afgerandi þáttur, skv. IUCN, eru meginmarkmiðin samt sem áður viðhald náttúrlegra vistkerfa og fjarvera varanlegra mannvirkja, námuvinnslu, landbúnaðar, vélvæddrar umferðar og annarra ummerkja nútíma tækni.

 

Nokkur munur er á skilgreiningu IUCN á verndarsvæðum Ib og “óbyggðum” víðernum samkvæmt náttúruverndarlögum: “Svæði í óbyggðum sem er að jafnaði a.m.k. 25 km 2 að stærð eða þannig að hægt sé að njóta þar einveru og náttúrunnar án truflunar af mannvirkjum eða umferð vélknúinna farartækja og í a.m.k. 5 km fjarlægð frá mannvirkjum og öðrum tæknilegum ummerkjum, svo sem raflínum, orkuverum, miðlunarlónum og uppbyggðum vegum.”

 

IUCN skilgreinir verndarflokk V (Protected landscape/seascape) sem verndarsvæði þar sem samspil manna og náttúru/landnýting hefur búið til svæði með afgerandi búsetueinkennum en einnig með mikilvægum vistfræðilegum, líffræðilegum, menningarlegum og fagurfræðilegum einkennum; og þar sem mikilvægt er að halda í þetta samspil manna og náttúru.

 

Í náttúruverndarlögum eru landslagsverndarsvæði skilgreind sem: “landsvæði til verndar landslagi sem:

    a. þykir sérlega verðmætt vegna fagurfræðilegs og/eða menningarlegs gildis,

    b. talið er sérstætt eða fágætt á svæðis-, lands- eða heimsvísu eða

    c. skipar mikilvægan sess í vitund þjóðarinnar.

 

Friðlýsingin skal miða að því að varðveita sérkenni og einkenni landslagsins, fagurfræðilegt og menningarlegt gildi þess. Ef um er að ræða svæði þar sem hefðbundnar nytjar eru forsenda fyrir því að varðveita einkenni landslagsins skal friðlýsingin jafnframt miða að því að tryggja að þeim verði haldið við.

 

Halda má áfram starfsemi sem stunduð er á svæðinu en gæta skal ákvæða 1. málsl. 2. mgr. við útfærslu og þróun hennar. Mannvirki sem heimilað er að reisa á svæðinu skal skipuleggja og hanna þannig að þau falli sem best að svipmóti lands. Ekki er heimilt að takmarka för gangandi manna um landslagsverndarsvæði umfram það sem leiðir af ákvæðum IV. kafla.”  

 

Hvernig uppfylla drög að stjórnar- og verndaráætlun ákvæði verndarflokks Ib (IUCN)

Samkvæmt framlögðum drögum Umhverfisstofnunar, blasir við að flokkur Ib (IUCN) hefur og er ekki uppfylltur nema að hluta.  Dæmi um þetta má víða finna í skjalinu, sbr.: reisa skal árið 2019 “Þjónustuhús með rými fyrir landvörð, hreinlætisaðstöðu fyrir gesti og gestamóttöku reist á Hesteyri.” (bls. 4) “á nokkrum stöðum ber á gróðurskemmdum vegna notkunar vélknúinna ökutækja s.s. fjórhjóla” (bls. 12); “Samkvæmt aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar frá árinu 2008 voru þá 54 hús í friðlandinu, en til ársins 2020 má fjölga þeim í 110” (bls. 15); “að auki hafa risið 35 hús til viðbótar, annað hvort ný sumarhús eða endurbyggingar eldri húsa” (bls 16); “Lendingar hafa auk þess verið stundaðar víðar á friðlandinu á stöðum sem ekki eru skilgreindir sérstaklega sem lendingarstaðir” (bls. 17).

 

Þetta væri í sjálfu sér gott og blessað sem fortíðarvandi EF stefnan væri sett á að uppfylla verndarflokk IB að fullu héðan í frá. En slíkrar stefnu sér ekki stað í kaflanum um markmið, stefnu og leiðir í drögunum (Kafli 3, bls. 19-27). Þvert á móti virðist sem áfram eigi að leyfa margt sem ekki stenst verndaarflokk Ib.  Friðlandið á Hornströndum uppfyllir semsagt ekki og mun ekki í nánustu framtíð uppfylla skilyrði verndarflokks IUCN Ib.

Tillaga að annarri nálgun

Umhverfisstofnun reynir að leysa þessa miklu árekstra sem raunveruleg landnýting í friðlandinu á Hornströndum á við IUCN Ib, með því að skipta því í fjögur undirsvæði þar sem mismunandi reglur um fjölda ferðamanna og hundahald gilda, en engin munur virðist vera á landnýtingu að öðru leyti.  Þetta gengur ekki upp að mati Landverndar. Mun hreinlegra væri  að skipta svæðinu í a.m.k. tvo verndarflokka, landslagsverndarsvæði og óbyggt víðerni (sbr. hér að framan), sem geta staðið undir nafni og miða reglur um alla landnýtingu við þá flokka.

Landvernd leggur því til að Umhverfisstofnun dragi þessi drög til baka og skilgreini verndarflokka núverandi Hornstrandafriðlands upp á nýtt og leggi fram tillögur að aðgansstýringu þar sem það á við

 

 

 

 

 

 

Virðingarfyllst,

f.h. Landverndar,

 

 

Auður Magnúsdóttir

framkvæmdastjóri

 

[1]Landvernd telur rétt að Umhverfisstofnun, sem fer með framfylgd náttúruverndarlaga nr. 60/2013, notiverndarflokka sem þar eru skilgreindir frekar en verndarflokka IUCN, því nokkur munur getur verið á skilgreiningunum, en þetta er kannski ekki stórvægilegt atriði. 

[2] https://www.iucn.org/theme/protected-areas/about/protected-areas-categories/category-ia-strict-nature-reserve

 

 

 

Umsögn til niðurhals

Hornstrandafriðland_umsögn landverndar.pdf
Tögg
Hornstrandir_marshes.jpg 

Vista sem PDF

 

Stöndum vörð um náttúru Íslands

Taktu afstöðu og vertu með!

Leita í fréttumÞátttaka í ákvarðanatöku

2020-Halendi-islands-Chris-Burkard.jpg
Landvernd styður hugmyndir um Hálendisþjóðgarð og Þjóðgarðastofnun
Landvernd styður hugmyndir um Hálendisþjóðgarð og Þjóðgarðastofnun en nauðsynlegt er að koma í veg fyrir uppbyggingu orkuvera og miðlunarlóna á hálendinu enda skerðir það verðmæti svæðisins og er í trássi við náttúruverndarlög og alþjóðlegar skilgreiningar á þjóðgörðum.