Fréttir

Brennisteinsfjöll náttúruperlur í túnfætinum

Landvernd    23.8.2006
Landvernd

Horft til vesturs úr Eldborgarhrauni yfir Hvammahraun. Í baksýn má sjá Kleifarvatn og Sveifluháls.

Landvernd, Leiðsögumenn Reykjaness, Ferðafélag Íslands og Ferlir stóðu saman fyrir ferð í Brennisteinsfjöll. Ferðin var liður í að kynna framtíðarsýn Landverndar um Reykjanesskaga sem Eldfjallagarð og fólkvang. Nánar verður fjallað um framtíðarsýn Landverndar í Norræna húsinu þann 7. september n.k.

Áður en haldið var á stað hélt Ari Trausti Guðmundsson erindi um mótun og myndun Reykjanesskagans. Ari lagði árherslu á að skoða þyrfti Reykjanesskagann með heildstæðum hætti og skilgreina hvaða svæði skuli nýtt og hvað skuli verndað. Ari Trausti dró fram jarðfræðilega sérstöðu Reykjanesskagans og taldi hann hafa umtalsvert verndargildi, ekki síst Brennisteinsfjöllin sjálf, þar sem um er að ræða eina staðinn í heiminum þar sem úthafshryggur gengur á land. Þá fjallaði Eyjólfur Sæmundsson um Brennisteinsfjöllin og tók hann undir með Ara Trausta hvað varðar að skoða þurfi Reykjanesskagann með heildstæðum hætti. Áður en ráðist yrði í slíka skoðun vildi hann þó byrja á að friða Brennisteinsfjöllin, eins og Umhverfisstofnun lagði til í tillögu sinni að náttúruverndaráætlun.

Gangan yfir Brennisteinsfjöll er frekar erfið þar sem ganga þarf yfir úfin hraun og langar vegalengdir. Alls voru ferðalangarnir 21 talsins og má ætla að sjaldan hafi farið jafn stór hópur yfir þessi fjöll enda svæðið nánast óþekkt af öllum almenningi.

Mikilfenglegt útsýni
Ferðin hófst austan við Kleifarvatn og var gengið upp með Hvammahrauni (Hvannahraun). Þegar komið er upp í eldborgir blasir við ótrúlegt útsýni. Í suðaustri eru Vestmannaeyjar og Surtsey. Í austri sést yfir suðurlandið með Eyjafjallajökul við sjónarrönd og í norðvestri sést yfir Faxaflóann þar sem Snæfellsjökull sést á góðum degi.

Gengið um hraunmyndanir og víðerni
Reykjanesskaginn nýtur þeirrar sérstöðu að vera eini staðurinn í heiminum þar sem sjá má með berum augum hvar úthafshryggur gengur á land með eldsumbrotum og jarðhræringum. Jarðeldar og jarðhiti setja sinn svip á Brennisteinsfjöll en þar er að finna mikilfenglegar gígaraðir, hrauntraðir, hraunhella og móbergsmyndanir svo fátt eitt sé nefnt.

Svæðið frá Stóra Kóngsfelli, vestan Bláfjalla, suður og vestur fyrir Brennisteinsfjöll eru ósnortin víðerni. Þessi víðerni eru eina ósnortna eldstöðvarkerfið á Reykjanesskaganum þar sem öðrum kerfum hefur verið raskað með mannvirkjagerð af ýmsu tagi. Einu sjáanlegu ummerki mannsins í Brennisteinsfjöllum má rekja til námuvinnslunnar sem var lögð af 1882. Nokkrir steinar og lítill ofn, gamlar götur og tóftir frá tíð námuverkamanna í brennisteinsnámunum. Fornar gönguleiðir, s.s. Selvogsgatan (Hlíðavegur) koma inn á fjöllin.

Úr Eldborg var gengið í norðaustur yfir Kistu að Kistufelli og áð í Kistufellsgíg sem líkja má við ofur vaxið hringleikahús með mikilfenglegum grágrýtis kraga og stöllum. Kyrrðin í mosanum er alger og þegar horft er upp á grágrýtis hamrana fyllist maður lotningu yfir sköpunarverkinu. Frá Kistufelli var haldið eins og leið lá í Brennisteinsnámurnar og skoðaðar minjar um námuvinnslu. Þá var gengið í átt að Grindarskörðum, fram hjá Syðstubollum og niður um Kerlingarskarð. Þegar komið var í Kerlingarskarð voru ferðalangar bæði sælir og þreyttir enda 20 km ganga að baki.

Þeir sem þarna fóru vita að Brennisteinsfjöll hafa að geyma fjölmargar náttúruperlur, hér í túnfætinum heima hjá okkur.

Bergur Sigurðsson,
framkvæmdastjóri Landverndar.

Tögg

Vista sem PDF

 

Stöndum vörð um náttúru Íslands

Taktu afstöðu og vertu með!

Leita í fréttumÞátttaka í ákvarðanatöku

2020-Halendi-islands-Chris-Burkard.jpg
Landvernd styður hugmyndir um Hálendisþjóðgarð og Þjóðgarðastofnun
Landvernd styður hugmyndir um Hálendisþjóðgarð og Þjóðgarðastofnun en nauðsynlegt er að koma í veg fyrir uppbyggingu orkuvera og miðlunarlóna á hálendinu enda skerðir það verðmæti svæðisins og er í trássi við náttúruverndarlög og alþjóðlegar skilgreiningar á þjóðgörðum.