Fréttir

Fréttatilkynning: Eðli almenningssamtaka

Landvernd    5.12.2017
Landvernd

FRÉTTATILKYNNING FRÁ LANDVERND

Eðli almenningssamtaka

Stjórn Landverndar harmar að málsmetandi blaðamenn RÚV hafi í fréttum um nýjan umhverfisráðherra undanfarna daga vísað til umhverfis- og náttúruverndarsamtakanna Landverndar sem hagsmunasamtaka. Einstakir þingmenn og fleiri hafa í umræðum ekki gert greinarmun á stöðu frjálsra samtaka almennings á sviði umhverfisverndar og samtaka atvinnufyrirtækja.

Frá fyrstu fréttum af vali nýs umhverfisráðherra hafa fleiri en einn og fleiri en tveir fréttamenn RÚV vísað til Landverndar sem hagsmunasamtaka. Í umræðum í kjölfarið hafa þingmenn úr öllum flokkum látið þetta átölulaust og jafnvel líkt Landvernd við samtök atvinnurekenda, sem sannarlega er hefð fyrir  að kalla hagsmunasamtök, enda eru þau það. Má þar m.a. nefna SFS og Bændasamtökin. Jafnvel hefur þingmaður og fyrrverandi ráðherra gengið svo langt í umræðum að kalla Landvernd sérhagsmunasamtök. Stjórn Landverndar bendir á að í hinu mikilvæga hlutverki fréttamanna felst að til þeirra er gerð rík krafa um rétta og hlutlæga nálgun. Landvernd gerir þá kröfu til þeirra að þeir þekki og geri mun á eðli samtaka almennings og samtaka atvinnufyrirtækja.

Í annan stað hafa blaðamenn gengið út frá því að umhverfisráðherra úrskurði í kærumálum Landverndar og spurning rísi því um vanhæfi þess sem nú hefur tekið við því embætti.

Af þessu tilefni vill stjórn Landverndar taka eftirfarandi fram:

  1. Umhverfis- og náttúruverndarsamtökin Landvernd eru samtök almennings sem gæta almannahagsmuna. Félagsmenn eru um 5.000. Enginn félagsmanna Landverndar hagnast persónulega af baráttu samtakanna, en náttúran, sameign okkar allra, nýtur vonandi góðs af henni. Mikilvægi frjálsra félagasamtaka almennings á borð við Landvernd er áréttað í alþjóðasamningum, einkum Árósasamningnum. Að líkja Landvernd við hagsmunasamtök einkafyrirtækja, hvort sem er í sjávarútvegi, ferðaþjónustu, álframleiðslu eða orkuframleiðslu, svo sem gert var í þættinum Vikulokunum s.l. laugardag, lýsir alvarlegri vanþekkingu. 
  2. Ágreiningsmál Landverndar á verkefnasviði umhverfisráðuneytisins eru aðallega úrskurðuð af óháðri og sjálfstæðri úrskurðarnefnd, úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, eða af dómstólum. Það fyrirkomulag byggist á Árósasamningnum, sem fullgiltur var að tilhlutan Alþingis 2011.

Umhverfisráðherra hefur vissulega vald til þess að úrskurða í tilteknum ágreiningsmálum sem til hans er vísað en Landvernd hefur ekki átt aðild að slíku mál í ráðuneytinu í fjöldamörg ár. Engin stjórnsýslukæra Landverndar liggur nú í ráðuneyti umhverfismála. Umræða um vanhæfi nýs umhverfisráðherra er því ekki á rökum reist.  

Stjórn Landverndar mun af þessu tilefni taka það upp við nýskipaðan ráðherra að gera gangskör að því að kynna efni Árósasamningsins, og þar með eðli samtaka almennings á sviði umhverfismála, fyrir öllum almenningi og þó sérstaklega fyrir kjörnum fulltrúum almennings bæði á sveitarstjórnarstiginu og í landsmálum og fyrir blaðamönnum. Ísland hefur með fullgildingu alþjóðasamningsins undirgengist sérstaklega að uppfræða almenning um efni hans. Vanþekking á efni hans skrifast því að nokkru á æðstu ráðamenn þjóðarinnar. 

Nánari upplýsingar veitir Snorri Baldursson, stjórnarmaður í Landvernd, í síma 897 9975.

Logo an texta.jpg 

Vista sem PDF

 

Stöndum vörð um náttúru Íslands

Taktu afstöðu og vertu með!

Leita í fréttumÞátttaka í ákvarðanatöku

2020-Halendi-islands-Chris-Burkard.jpg
Landvernd styður hugmyndir um Hálendisþjóðgarð og Þjóðgarðastofnun
Landvernd styður hugmyndir um Hálendisþjóðgarð og Þjóðgarðastofnun en nauðsynlegt er að koma í veg fyrir uppbyggingu orkuvera og miðlunarlóna á hálendinu enda skerðir það verðmæti svæðisins og er í trássi við náttúruverndarlög og alþjóðlegar skilgreiningar á þjóðgörðum.