Fréttir

Loftslagssamningur Landverndar og Hornafjarðar

Sveitarfélagið Hornafjörður hefur fyrst sveitarfélaga á Íslandi hafið þátttöku í loftslagsverkefni Landverndar „Tækifærin liggja í loftinu“. Björn Ingi Jónsson bæjarstjóri og Guðmundur Ingi Guðbrandsson framkvæmdastjóri Landverndar skrifuðu í síðustu viku undir yfirlýsingu um samdrátt sveitarfélagsins í útlosun mengunarefna sem valda loftslagsbreytingum í þremur geirum: Samgöngum, úrgangi og orkunotkun. „Með yfirlýsingunni ábyrgjumst við að vinna ötullega að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í starfsemi okkar og hvetja jafnframt fyrirtæki og íbúa til hins sama“, segir Björn Ingi. Fyrir sveitarfélagið Hornafjörð eru loftslagsbreytingar mjög áþreifanlegar; jöklar hopa, landris veldur vandamálum við innsiglinguna á Höfn, og súrnun sjávar er líkleg til að hafa neikvæð áhrif á lífríki sjávar í framtíðinni, en sjávarútvegur er stór atvinnuvegur á svæðinu.

Á síðustu tveimur og hálfu ári hafa sveitarfélagið og Landvernd unnið í sameiningu að því að mæla útlosun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi sveitarfélagsins sem einingar og setja sveitarfélaginu markmið og vinna aðgerðaáætlun um samdrátt í útlosun. „Verkefnið á sér fyrirmynd hjá dönsku náttúruverndarsamtökunum, en um 75% sveitarfélaga í Danmörku taka þátt í verkefni þeirra. Við stefnum því auðvitað á að fá fleiri sveitarfélög inn í verkefnið og hefur Fljótsdalshérað þegar hafið undirbúningsvinnu“, segir Rannveig Magnúsdóttir verkefnisstjóri hjá Landvernd.

Með verkefninu vill Landvernd aðstoða sveitarfélög við að draga úr loftslagstengdri mengun og verða leiðandi þátttakendur í heimahéraði í að takast á við loftslagsbreytingar, sem eru ein stærsta áskorun nútímans. „Sýn okkar er sú að Ísland verði kolefnishlutlaust eftir 15-20 ár og við teljum að sveitarfélögin gegni þar lykilhlutverki með því að ná til nærsamfélagsins. Með því að draga úr losun eins og hægt er og nota svo endurheimt votlendis, jarðvegs- og gróðurs með landgræðslu og skógrækt, til að dekka það sem upp á vantar, vonum við að þetta geti orðið að veruleika á Íslandi“, segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar.

Á næstu tveimur árum stefnir Sveitarfélagið Hornafjörður að a.m.k. 3% samdrætti á ári í útlosun  gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum, orkunotkun og úrgangi. Stefnt er að frekari samdrætti eftir endurskoðun aðgerðaáætlunar árið 2018. 

Tögg
Undirritun Landvernd_fra BB.jpg  DSC_0369.JPG 

Vista sem PDF

 

Stöndum vörð um náttúru Íslands

Taktu afstöðu og vertu með!

Leita í fréttumÞátttaka í ákvarðanatöku

2020-Halendi-islands-Chris-Burkard.jpg
Landvernd styður hugmyndir um Hálendisþjóðgarð og Þjóðgarðastofnun
Landvernd styður hugmyndir um Hálendisþjóðgarð og Þjóðgarðastofnun en nauðsynlegt er að koma í veg fyrir uppbyggingu orkuvera og miðlunarlóna á hálendinu enda skerðir það verðmæti svæðisins og er í trássi við náttúruverndarlög og alþjóðlegar skilgreiningar á þjóðgörðum.