Fréttir

Mótmælafundur á Austurvelli

Landvernd boðar til mótmælafundar á Austurvelli á morgun, miðvikudag 13. maí, kl. 16:30. Umræður eru hafnar á Alþingi um tillögu meirihluta atvinnuveganefndar um að færa fjórar virkjanir til viðbótar í virkjanaflokk rammaáætlunar án þess að nægilega faglega hafi verið staðið að málum. Um er að ræða virkjanir í neðrihluta Þjórsár og upp á hálendinu sjálfu, við Skrokköldu á Sprengisandi og Hagavatn sunnan Langjökuls.

Rammaáætlun fjallar um hvar megi virkja og hvar ekki. Virkjanahugmyndirnar hafa ekki hlotið fullnægjandi málsmeðferð sem lög mæla fyrir. Lög um rammaáætlun gera ráð fyrir að faghópar meti verðmæti svæða og áhrif virkjana á þau, gefi þeim stig og raði þeim eftir verðmætum á þessum forsendum. Vorið 2013 tók ný verkefnisstjórn rammaáætlunar til starfa og vinnur nú að 3. áfanga áætlunarinnar. Í endurskoðun hennar á flokkun virkjanahugmynda í neðrihluta Þjórsár var engri stigagjöf beitt og enginn samanburður fékkst við aðrar virkjanahugmyndir. Faghópar hafa ekki enn metið Skrokköldu- og Hagavatnsvirkjun í núverandi áfanga en vinnu þeirra ber lögum samkvæmt að leggja til grundvallar mati verkefnisstjórnar á hverjum tíma. Landvernd telur því Alþingi ekki geta fært virkjanahugmyndir til með þessum hætti án þess að þessi vinna hafi farið fram.

Burtséð frá lagalegum atriðum er ljóst að verði tillaga meirihluta atvinnuveganefndar að veruleika felur það í sér alvarlegt rof á tilraun til sátta um orkunýtingu í landinu. Rammaáætlun verður gefið langt nef. Aðeins eitt ár er í að niðurstöður verkefnisstjórnar núverandi rammaáætlunar liggja fyrir, þar sem hægt yrði að taka ofangreindar virkjanahugmyndir til greina. Landvernd telur nær að bíða þeirrar niðurstöður í stað þess að efna til þessa ófriðar. 

Tögg

Vista sem PDF

 

Stöndum vörð um náttúru Íslands

Taktu afstöðu og vertu með!

Leita í fréttumÞátttaka í ákvarðanatöku

2020-Halendi-islands-Chris-Burkard.jpg
Landvernd styður hugmyndir um Hálendisþjóðgarð og Þjóðgarðastofnun
Landvernd styður hugmyndir um Hálendisþjóðgarð og Þjóðgarðastofnun en nauðsynlegt er að koma í veg fyrir uppbyggingu orkuvera og miðlunarlóna á hálendinu enda skerðir það verðmæti svæðisins og er í trássi við náttúruverndarlög og alþjóðlegar skilgreiningar á þjóðgörðum.