Fréttir

Mótmælir Norðlingaölduveitu og háspennulínu í aðalskipulagi

   13.9.2013

Landvernd hefur sent Ásahreppi athugasemdir við lýsingu á aðalskipulagsbreytingu á Holtamannaafrétti. Samtökin gera alvarlegar athugasemdir við fyrirhugaðar breytingar. Hér á eftir fer samantekt helstu atriða og í viðhengi er að finna umsögnina í heild sinni.

1. Landvernd telur að Ásahreppur fari á sveig við lög nr. 48/2011 með því að halda Norðlingaölduveitu inni á aðalskipulagi sem uppistöðulóni, en hún tilheyrir verndarflokki í verndar- og orkunýtingaráætlun Alþingis. Samkvæmt lögunum er ekki gert ráð fyrir því að virkjanir séu settar inn á skipulagsáætlanir nema það samræmist flokkun áætlunarinnar. Þá ber sveitarstjórnum að gera ráð fyrir friðun þeirra svæða sem eru í verndarflokki áætlunarinnar. Í þessu tilfelli þýðir það að Ásahreppi ber að gera ráð fyrir friðun svæðisins inni á skipulagi. Norðlingaölduveita myndi spilla víðernum á hálendinu vestan Þjórsár og rennsli í fossum árinnar, s.s. Dynk og Gljúfraleitafossi, myndi stórminnka.

2. Landvernd mótmælir því að Ásahreppur hyggist setja legu 220kV háspennulínu yfir Sprengisand inn á aðalskipulag, en slík framkvæmd myndi hafa mikil sjónræn áhrif í för með sér. Samtökin benda á að Landsnet hafi ekki gert skýra grein fyrir þörfinni á svo stórri línu, auk þess sem kerfisáætlun Landsnets sem vitnað er til í lýsingu Ásahrepps hefur ekki farið í gegnum mat á umhverfisáhrifum áætlana. Landvernd hefur áður líst því yfir að samtökin leggjast gegn lagningu háspennulína yfir hálendið.

3. Landvernd telur ekki tímabært að setja virkjanahugmyndir í biðflokki verndar- og orkunýtingaráætlunar inn á skipulag fyrr en Alþingi hefur sett fram nýja áætlun sem flokki þessar hugmyndir í verndar- eða orkunýtingarflokk. Þetta á við um Skrokkölduvirkjun og virkjanir í og við Hágöngulón, í jaðri Vatnajökulsþjóðgarðs.

4. Landvernd gagnrýnir einnig að uppbyggðir heilsársvegir á Sprengisandi skuli settir á aðalskipulag, en slíkar framkvæmdir myndu hafa mikil sjónræn áhrif.

5. Landvernd gerir athugasemdir við að ekki sé gert ráð fyrir að meta áhrif aðalskipulagsbreytinganna á víðerni og ferðaþjónustu.

 

Asahreppur_Holtamannaafrettur_Lysing adalskipulagsbreytingar_Umsogn_Landverndar__6sept2013
Tögg

Vista sem PDF

 

Stöndum vörð um náttúru Íslands

Taktu afstöðu og vertu með!

Leita í fréttumÞátttaka í ákvarðanatöku

2020-Halendi-islands-Chris-Burkard.jpg
Landvernd styður hugmyndir um Hálendisþjóðgarð og Þjóðgarðastofnun
Landvernd styður hugmyndir um Hálendisþjóðgarð og Þjóðgarðastofnun en nauðsynlegt er að koma í veg fyrir uppbyggingu orkuvera og miðlunarlóna á hálendinu enda skerðir það verðmæti svæðisins og er í trássi við náttúruverndarlög og alþjóðlegar skilgreiningar á þjóðgörðum.