Þátttaka í ákvarðanatöku Fréttir Níu samtök hvetja til uppbyggingar Náttúruminjasafns 16.9.2013 16.9.2013 Níu samtök hafa sent menntamálaráðherra bréf þar sem hann er eindregið hvattur til að sýna djörfung og þor við uppbyggingu Náttúruminjasafns Íslands í Perlunni. Náttúruminjasafn Íslands er lögum samkvæmt eitt þriggja höfuðsafna þjóðarinnar og á að gegna lykilhlutverki í kynningu og fræðslu um náttúru Íslands. Safnið hefur verið á hrakhólum og búið við óviðunandi aðstæður svo áratugum skiptir. Náttúruminjasafn í Perlunni veitir ótal tækifæri og mat fagaðila, m.a. Framkvæmdasýslu ríkisins, bendir til að aðgangseyrir muni standa undir leiguverðinu (80 milljónir á ári fyrir 3.200 m2, og gott betur). Jafnframt yrði safnið mikilvægur þáttur í uppbyggingu ferðaþjónustunnar. Veglegt höfuðsafn í náttúrufræðum er stolt hverrar velstæðrar þjóðar og dýrmætur fróðleiksbrunnur fyrir þegna og gesti viðkomandi lands. Í ljósi þess að Íslendingar byggja atvinnu sína og líf á náttúru landsins í mjög ríkum mæli, auk þess sem langflestir erlendir ferðamenn sækja landið heim vegna náttúrunnar, skiptir öllu máli að bjóða upp á vandað höfuðsafn um náttúru landsins sem vel er í sveit sett og sómi er að. Samtökin minna á að Náttúruminjasafn Íslands hefur mikla þýðingu fyrir upplýsingamiðlun og fræðslu gagnvart öllum skólastigum landsins og almenningi. Slík fræðsla er óformleg í þeim skilningi að hún er ekki beint innan skólakerfisins og í því liggur styrkur hennar. Félag náttúrufræðikennara á grunnskólastigi, Sigurður Halldór Jesson Félag raungreinakennara – Valgerður Þ.E. Guðjónsdóttir Fuglavernd, Jóhann Óli Hilmarsson Hið íslenska náttúrufræðifélag, Árni Hjartarson Jarðfræðafélag Íslands, Sigurlaug María Hreinsdóttir Landvernd, Guðmundur Hörður Guðmundsson Líffræðifélag Íslands, Arnar Pálsson Náttúruverndarsamtök Íslands, Árni Finnsson Samlíf – Samtök líffræðikennara, Ester Ýr Jónsdóttir Vista sem PDF