Fréttir

Norrænt / baltneskt verkefni um útikennslu

Landvernd    15.10.2008
Landvernd
Nú er að hefjast á öllum Norðurlöndunum, baltnesku löndunum og í St. Pétursborg í Rússlandi verkefni í útikennslu. Verkefnið er unnið vegna óska frá Norrænu ráðherranefndinni og því er stýrt af Dönsku útvistarsamtökunum. Þau hafa aftur leitað samstarfs við þá aðila sem halda utan um verkefnið “Skólar á grænni grein” í viðkomandi löndum og þar á meðal til Landverndar. Verkefnið er kallað Börn eiga rétt á heilbrigðu líferni – fjölbreyttri náttúru, hreinu umhverfi og rými til útiveru (Á ensku: Children have the Right to a Healthy Living – a Rich Nature, a Clean Environment and Space for Outdoor Life og hefur verið stytt í COPE, Children, Outdoor, Participation, Environment). Gert er ráð fyrir að valdir verði 5 skólar í einu til tveimur sveitarfélögum þessara landa, í allt 45 skólar. Síðan vinna allir skólarnir svipað verkefni, hver í sínu umhverfi. Þeir setja niðurstöður sínar inn á sérstaka heimasíðu og hafa samskipti sín á milli.
Í verkefninu eiga nemendur tveggja til þriggja bekkja í hverjum skóla að skoða umhverfi skóla síns og heimila og meta hversu ríkulegt svæðið er m.t.t. náttúru, hve vel það er fallið til útivistar og hvort þar leynist hættur, s.s. mikill umferðarþungi. Nemendur eiga að kynna sér þær breytingar sem hafa orðið á svæðinu frá því að elstu menn muna og þeir eiga að kynna skipulagsyfirvöldum hugmyndir sínar um framtíð svæðisins. Verkefnið á að auka áhuga nemenda á útivist sjálfum sér til heilsubótar og umhverfinu til heilla, efla áhuga á og bæta aðstæður kennara og skóla á útikennslu, vekja athygli skipulagsyfirvalda á mikilvægi þess að taka tillit til útikennslu og útivistar barna í skipulagi og síðast en ekki síst á verkefnið að virkja nemendur og þjálfa þá til lýðræðislegra vinnubragða. Fljótlega mun Landvernd leita til skipulagsyfirvalda og skóla um samstarf í þessu verkefni. Vonandi gengur sú málaleitan vel svo að íslenskir skólar og börn geti verið með í þessu áhugaverða verkefni.

Vista sem PDF

 

Stöndum vörð um náttúru Íslands

Taktu afstöðu og vertu með!

Leita í fréttumÞátttaka í ákvarðanatöku

2020-Halendi-islands-Chris-Burkard.jpg
Landvernd styður hugmyndir um Hálendisþjóðgarð og Þjóðgarðastofnun
Landvernd styður hugmyndir um Hálendisþjóðgarð og Þjóðgarðastofnun en nauðsynlegt er að koma í veg fyrir uppbyggingu orkuvera og miðlunarlóna á hálendinu enda skerðir það verðmæti svæðisins og er í trássi við náttúruverndarlög og alþjóðlegar skilgreiningar á þjóðgörðum.