Fréttir

Snorri Baldursson nýr formaður Landverndar

Aðalfundur Landverndar var haldinn að Hallveigarstöðum í Reykjavík þann 9. maí 2015. Á fundinum var farið yfir nýliðið starfsár, kosinn nýr formaður og ný stjórn og ný langtímaverkefni Landverndar kynnt. Aðalfundurinn samþykkti fimm ályktanir. Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar hélt erindi um ferðaþjónustu og náttúruvernd.

Snorri Baldursson nýr formaður Landverndar

Snorri Baldursson, líffræðingur og höfundur bókarinnar Lífríki Íslands, sem hlaut íslensku bókmenntaverðlaunin 2014 í flokki fræðirita, var kjörinn formaður Landverndar á aðalfundi samtakanna sem haldinn var í gær. Páll Ásgeir Ásgeirsson, rithöfundur og leiðsögumaður og Kristín Vala Ragnarsdóttir, prófessor, komu einnig ný inn í stjórn Landverndar. Guðmundur Hörður Guðmundsson lét af störfum formanns, en hann hefur leitt samtökin síðan 2011.

Nýja stjórn Landverndar skipa: Snorri Baldursson, líffræðingur (formaður), Andri Snær Magnason, rithöfundur, Anna G. Sverrisdóttir, ferðamálaráðgjafi, Fríða Björg Eðvarðsdóttir, landslagsarkítekt, Guðmundur Björnsson, ferðamálafræðingur og leiðsögumaður, Jóna Fanney Friðriksdóttir, framkvæmdastjóri, Kristín Vala Ragnarsdóttir, prófessor, Margrét Auðunsdóttir, líffræðingur og framhaldsskólakennari, Páll Ásgeir Ásgeirsson, leiðsögumaður, Pétur Óskarsson, framkvæmdastjóri.

Ályktanir aðalfundar og erindi

Aðalfundur Landverndar samþykkti fimm ályktanir (sjá viðhengi). Aðalfundurinn skoraði á stjórnvöld að hefja vinnu við friðun miðhálendisins með stofnun þjóðgarðs og mótmælti harðlega þingsályktunartillögu meirihluta atvinnuveganefndar Alþingis um að færa fimm virkjanahugmyndir úr biðflokki í orkunýtingarflokk rammaáætlunar án fullnægjandi umfjöllunar. Þá kallaði aðalfundurinn eftir auknum rannsóknum á áhrifum ferðamanna á náttúruperlur, aukinni landvörslu og að tryggð verði gæði vinnu við uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum. Aðalfundurinn skoraði á stjórnvöld að tryggja vernd Jökulsárlóns og Breiðamerkursandi og Breiðamerkursand í heild sinni og hvatti til þess að skoðað yrði hvort svæðið gæti orðið hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. Þá tók aðalfundurinn undir kröfu Umhverfisvaktarinnar í Hvalfirði um að hlífa eigi lífríki og íbúum Hvalfjarðar við frekari ágangi af völdum mengandi stóriðju við fjörðinn.

Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar flutti erindi um ferðaþjónustu og náttúruvernd og sagði m.a. að ferðaþjónustan ætti mikið undir náttúruvernd þar sem um 80% erlendra gesta nefna náttúru landsins sem helstu ástæðu Íslandsferðar. Helga hvatti til nánara samstarfs milli ferðaþjónustunnar og stofnana sem fara með náttúruverndarmál og við náttúruverndarsamtök.

Nýliðið starfsár

Í skýrslu stjórnar sem Guðmundur Hörður Guðmundsson flutti kom fram að langtímaverkefnum Landverndar hefur fjölgað úr þremur í átta á síðastliðnum fjórum árum. Þá hefur þátttaka samtakanna í faglegum umsögnum um þingmál, skipulagsmál og ýmsar framkvæmdir aukist jafnt og þétt og samtökin hafa í auknum mæli skotið ákvörðunum er varða umhverfismál til kærunefnda eða dómstóla.

Á nýliðnu starfsári var vernd hálendisins ofarlega á baugi. Í framhaldi af tónleikunum Gætum garðsins sem haldnir voru í fyrra varð til nýtt verkefni í samstarfi við Náttúruverndarsamtök Íslands sem miðar að því að ná samstöðu um varanlega vernd hálendisins. Öflugt samstarf var við útivistarfélög, Ferðafélag Íslands, Útivist, Ferðaklúbbinn 4x4 og Samtök útivistarfélaga um ýmis verkefni, þ.m.t. umsagnir við frumvarp um náttúrupassa og framkvæmdahugmyndir á hálendinu, þ.m.t. háspennulínu og uppbyggðan veg yfir Sprengisand. Þá sá Landvernd sig knúin til að stefna Landsneti vegna samþykktar fyrirtækisins á kerfisáætlun þess um framkvæmdir í flutningskerfi raforku á Íslandi. Samtökin sendu einnig kæru fyrir hönd Hraunavina til Mannréttindadómstóls Evrópu vegna niðurstöðu Hæstaréttar í gálgahraunsmálinu. Þá hafa samtökin mótmælt harðlega tillögu meirihluta atvinnuveganefndar Alþingis um að færa virkjanahugmyndir yfir í orkunýtingarflokk rammaáætlunar án fullnægjandi umfjöllunar. Alls sendu samtökin um 25 umsagnir um margvísleg þingmál, skipulagsmál og framkvæmdahugmyndir á starfsárinu.

Mikið starf er unnið í umhverfismennt í skólum landsins, en hið vinsæla alþjóðlega Grænfánaverkefni er nú rekið í tæplega 240 skólum út um allt land. Landvernd vinnur einnig með nokkrum sveitarfélögum að umhverfismálum í höfnum og á baðströndum með hinu alþjóðlega Bláfánaverkefni. Þá vinna samtökin með tveimur sveitarfélögum að loftslagsmálum. Landvernd hefur einnig hafið samstarf við Kvenfélagasamband Íslands og Vakandi um vitundarvakningu um matarsóun. Landvernd vinnur einnig með skólum á Suðurlandi að menntaverkefni um landgræðslu í samstarfi við Landgræðslu ríkisins. Þá hóf Landvernd á árinu nýtt alþjóðlegt verkefni, Græna lykilinn, sem er umhverfismerki sem veitt er gististöðum og öðrum fyrirtækjum í afþreyingarþjónustu. Landvernd þróar nú einnig nýtt verkefni um vistvæna viðburði, þ.m.t. tónlistarhátíðir.

Félagsmönnum Landverndar fjölgaði úr 2500 í 3800 á árinu. Nánar má lesa um verkefni ársins í ársskýrslu Landverndar

Alyktanir adalfundar Landverndar 2015_ALLT_samthykktar alyktanir
Tögg
DSC_0170  Ný stjórn Landverndar ásamt framkvæmdastjóra.  DSC_0160  Fráfarandi stjórn Landverndar ásamt framkvæmdastjóra.  DSC_0207  Starfsfólk Landverndar á aðalfundi 2015 ásamt einum starfsnema. Á myndina vantar Caitlin Wilson og Hrefnu Einarsdóttur. 

Vista sem PDF

 

Stöndum vörð um náttúru Íslands

Taktu afstöðu og vertu með!

Leita í fréttumÞátttaka í ákvarðanatöku

2020-Halendi-islands-Chris-Burkard.jpg
Landvernd styður hugmyndir um Hálendisþjóðgarð og Þjóðgarðastofnun
Landvernd styður hugmyndir um Hálendisþjóðgarð og Þjóðgarðastofnun en nauðsynlegt er að koma í veg fyrir uppbyggingu orkuvera og miðlunarlóna á hálendinu enda skerðir það verðmæti svæðisins og er í trássi við náttúruverndarlög og alþjóðlegar skilgreiningar á þjóðgörðum.