Fréttir

Telja tillögu ráðherra ekki samræmast lögum

Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands, Náttúruverndarsamtök Suðurlands og Vinir Þjórsárvera lögðu eftirfarandi minnisblað fram á fundi umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis í morgun. Minnisblaðið hefur að geyma afstöðu samtakanna gagnvart tillögu umhverfis- og auðlindaráðherra um breytingar á stækkun friðlandsins í Þjórsárverum:

 

,,Minnisblað til umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis vegna Norðlingaölduveitu

Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands, Náttúruverndarsamtök Suðurlands og Vinir Þjórsárvera telja að tillaga sú að friðlandsmörkum í Þjórsárverum, sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið sendi sveitarstjórnum Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Ásahrepps þann 27. desember 2013, samræmist hvorki lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun nr. 48/2011 né afmörkun svæða samkvæmt skýrslu verkefnisstjórnar rammaáætlunar sem þingsályktunartillaga um vernd og orkunýtingu landsvæða byggði á og flokkaði Norðlingaölduveitu í verndarflokk áætlunarinnar. Þá gengur tillaga ráðuneytisins beinlínis gegn rökstuðningi í þingsályktunartillögunni sem samþykkt var 14. janúar 2013 og einnig gegn tveimur síðustu náttúruverndaráætlunum. Nánar er gerð grein fyrir rökstuðningi hér að neðan.  

1. Samkvæmt 4. mgr. 6. gr. laga nr. 48/2011, ber ráðherra, þegar Alþingi hefur samþykkt verndar- og orkunýtingaráætlun, að hefja undirbúning að friðlýsingu landsvæða gagnvart orkuvinnslu samkvæmt verndarflokki áætlunarinnar. Núgildandi áætlun var samþykkt 14. janúar 2013 og var Norðlingaölduveita flokkuð í verndarflokk. Tillaga ráðherra að mörkum friðlands fylgir hinsvegar ekki þeim skilgreiningum á því landsvæði sem Norðlingaölduveita yrði á og lagt var til grundvallar því að sú virkjunarhugmynd féll í verndarflokk ofangreindrar áætlunar, og ber því að friðlýsa.

2. Í VI. kafla almennra athugasemda í greinargerð með frumvarpinu er tekið fram að „[v]irkjunarsvæði í vatnsafli miðist almennt við allt vatnasvið fallvatns ofan þeirrar virkjunar sem nýtir fallið og farveg fallsvatnsins neðan virkjunar“. Jafnframt segir um afmörkun svæða í kafla 3.2.1. í niðurstöðum 2. áfanga rammaáætlunar (júní 2011) að „[s]væði sem til greina koma vegna vatnsaflsvirkjana voru afmörkuð þannig að miðað var við vatnasvið ofan fyrirhugaðra stíflumannvirkja en þar fyrir neðan var aðeins tekinn meginfarvegurinn og næsta nágrenni hans (100-500 m út frá miðlínu eftir aðstæðum)“. Samkvæmt ofangreindu samrýmist tillaga ráðherra, hvað varðar mörk friðlandsins í suðri, ekki skilgreiningum löggjafans.

3. Í athugasemdum við þingsályktunartillögu um verndar- og orkunýtingaráætlun (þskj. 1165 – 727. mál, 140. löggj.þ., 2011-2012; kafli 5.1) kemur eftirfarandi fram í rökstuðningi fyrir verndun svæðisins sem Norðlingaölduveita er innan: „Felur í sér röskun vestan Þjórsár á lítt snortnu landi í jaðri Þjórsárvera, auk áhrifa á sérstæða fossa í Þjórsá. Kvíslaveitur hafa nú þegar virkjað þverár sem falla í Þjórsá að austan, en kvíslum vestan ár hefur verið hlíft. Virkjunarkostur sem liggur á jaðri svæðis með hátt verndargildi sem menn eru sammála um að eigi að njóta friðunar. Mannvirki rétt við friðland yrðu til lýta. Því þykir rétt að vernd á svæðinu verði látin hafa forgang.“ 

4. Í skýrslu verkefnisstjórnar 2. áfanga rammaáætlunar kemur einnig fram í sérstökum ábendingum frá faghópi I um náttúru- og menningarminjar að af þeim 30 svæðum sem metin voru búi tíu efstu yfir mjög miklum náttúru- og menningarverðmætum, þ.m.t. Þjórsárver og Þjórsá ofan Sultartanga. Þá segir ennfremur: „Ofangreind tíu svæði eru jafnframt þau sem faghópurinn mat verðmætust vegna landslags og öll eiga það sameiginlegt að þar eru óbyggð víðerni, víðáttumikil svæði þar sem athafnir mannsins eru lítt áberandi“. (bls. 72).

5.Tillaga UAR gengur gegn fyrirhuguðu svæði sem friðlýsa átti samkvæmt náttúruverndaráætlunum 2004-2008 og 2009-2013.

6.Verði farið að þeirri tillögu sem nú hefur verið kynnt sveitarstjórnum er augljóslega verið að halda opnum þeim möguleika að ný útfærsla Norðlingaölduveitu verði byggð á svæðinu sem myndi eyðileggja fossaröðina einstöku: Kjálkaversfoss, Dynk og Gljúfurleitarfoss, sem og lítt snortin víðerni svæðisins vestan Þjórsár.

7.Ljóst er að ef taka má upp nýjar útfærslur virkjunarhugmynda á verndarsvæðum, hvenær sem ráðherra hentar, er „langtímasjónarmiðum og heildstæðu hagsmunamati“  um hvar skuli virkjað og hvar ekki fórnað og þar með meginmarkmið löggjafarinnar fyrir borð borið.

Landvernd
Náttúruverndarsamtök Íslands
Náttúruverndarsamtök Suðurlands 

Vinir Þjórsárvera"

Minnisblad til u&snefndar Althingis_15jan2014_LOKA
Tögg

Vista sem PDF

 

Stöndum vörð um náttúru Íslands

Taktu afstöðu og vertu með!

Leita í fréttumÞátttaka í ákvarðanatöku

2020-Halendi-islands-Chris-Burkard.jpg
Landvernd styður hugmyndir um Hálendisþjóðgarð og Þjóðgarðastofnun
Landvernd styður hugmyndir um Hálendisþjóðgarð og Þjóðgarðastofnun en nauðsynlegt er að koma í veg fyrir uppbyggingu orkuvera og miðlunarlóna á hálendinu enda skerðir það verðmæti svæðisins og er í trássi við náttúruverndarlög og alþjóðlegar skilgreiningar á þjóðgörðum.