Fréttir Þúsundir gengu með Ómari 27.9.2006 Landvernd 27.9.2006 Landvernd Ómar Ragnarsson leiðir breiðfylkinguna niður Laugaveginn. Samkvæmt talningu reyndra fuglatalningarmanna gengu 10.750 manns niður Laugaveginn í gær 26. september. Talningin var framkvæmd við stjórnarráðshúsið. Þá eru ótaldir þeir sem bættust í hópinn á Austurvelli. Ómar hefur sett fram tillögu um þjóðarsátt undir yfirskriftinni "Íslands þúsund ár." Hugmyndir fela í sér að hægt verði að afla raforku til að knýja álverið í Reyðarfirði án þess að fórna þeim náttúruperlum sem færu undir fyrirhugað Hálslón. Ómar leggur til að fyllingu Hálslóns verði frestað og Kárahnjúkavirkjun verði geymd ógangsett sem magnað minnismerki um hugrekki þjóðar sem leitaði sátta við kynslóðir framtíðarinnar og eigin samvisku. Ómar segir að Kárahnjúkavirkjun muni hafa meiri óafturkræf neikvæð umhverfisáhrif en virkjun Gullfoss og Geysis samanlagt. Ómar segir þjóðina þurfa að spyrja sjálfa sig hvernig hún geti staðið að framkvæmd á borð við Kárahnjúkavirkjun en jafnframt dáð Sigríði í Brattholti, sem á sínum tíma kom í veg fyrir virkjun Gullfoss. Vigdís Finnbogadóttir, verndari Landverndar og fyrrverandi forseti Íslands, ásamt Ómari Ragnarssyni á Austurvelli. Mögnuð stemming var á Austurvelli þar sem Ómar hélt tölu yfir fjöldanum. Sr. Hildur Eir Bolladóttir sagði að Kárahjúkavirkjun væri ekki sjálfsbjargarviðleitni heldur kvíði og hræðsla við herra Mammon (ræða Hildar). Guðmundur Páll Ólafsson náttúrufræðingur hóf tölu sína á orðunum "Það kom að því að stóra, djúpa, Íslenska hjartað tók við sér" og lófatakið glumdi um völlinn. Á heimasíðu Ómars má sjá nokkrar myndsyrpur frá göngunni og ræðuhöldunum á Austurvelli. Í Speglinum 27. september er rætt við Pétur Óskarsson, framkvæmdastjóra, um hugmynd Ómars. Vista sem PDF