Fréttir

Vegagerðinni óheimilt að búta niður framkvæmdir til að komast hjá umhverfismati. 

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur tekið undir meginkröfu Landverndar í mikilvægu kærumáli vegna framkvæmda við breytingar á  Kjalvegi. Þrátt fyrir að úrskurðarnefndin hafi hafnað kröfu Landverndar um ógildingu á ákvörðun Skipulagsstofnunar um að ekki beri að umhverfismeta 2,9 km kafla af Kjalvegi, tók nefndin undir meginsjónarmið Landverndar er lúta að „pylsuskurði“ (salami slicing) Vegagerðarinnar. Í því felst að Vegagerðin hefur á síðustu 20 árum bútað framkvæmdir við Kjalveg niður í stutta kafla, sem hver um sig þarf ekki sjálfkrafa að sæta umhverfismati. Úrskurðirnir fela í sér skýr skilaboð til stjórnsýslustofnana og stjórnvalda um vandaðari ákvarðanir, og setja mikilvæg fordæmi sem þessir aðilar geta í framtíðinni stuðst við og farið eftir. Gildi kæruréttar umhverfissamtaka hefur því rækilega sannað sig.

Í september 2015 kærði Landvernd ákvörðun Skipulagsstofnunar um að ekki bæri að umhverfismeta 2,9 km kafla af Kjalvegi, en Vegagerðin hugðist ráðast í viðhald vegarins á svæðinu norðan Hvítár. Í kæru Landverndar gagnrýndu samtökin Vegagerðina harðlega fyrir að hafa á síðustu 20 árum skipt framkvæmdum á um 40 km kafla á Kjalvegi niður í búta, þannig að enginn þeirra væri nægjanlega stór til að fara sjálfkrafa í mat á umhverfisáhrifum (kallað „pylsuskurður“ eða „salami slicing“). Vegagerðin hafði heldur ekki tilkynnt um framkvæmdirnar til Skipulagsstofnunar eins og henni bar að gera. Það var því ekki fyrr en Landvernd o.fl. bentu Skipulagsstofnun á að framkvæmdir væru í gangi norðan Hvítár á Kili árið 2014 sem málið kom til kasta stofnunarinnar. 

Úrskurðarnefndin tekur undir meginsjónarmið Landverndar í málinu, en í úrskurðinum kemur fram það álit nefndarinnar að almennt, þegar augljóst er að framkvæmdir tengjast, verði ekki við það búið að skoða eingöngu stakar framkvæmdir án þess að huga að samhengi þeirra við framkvæmdir, sem þegar hafa átt sér stað og fyrirhugaðar eru. Þá sé ljóst að almennt sé sá háttur að hluta niður framkvæmdir (pylsuskurður) til þess fallinn að fara á svig við markmið umhverfismatslöggjafarinnar. Vegagerðinni var m.ö.o. ekki stætt á því að vinna að framkvæmdum á Kjalvegi á síðustu 20 árum með þeim hætti sem hún gerði. 

Úrskurðarnefndin telur einnig að Skipulagsstofnun hafi borið að líta til fleiri framkvæmda á Kjalvegi en þessara 2,9 km í ákvörðun sinni. Þannig hefði stofnunin a.m.k. átt að líta einnig til framkvæmda sem áttu sér stað á 6,4 km kafla norðan Hvítár frá árinu 2014 og tilheyrandi efnistöku, sem og 6,9 km kafla frá Grjótá að Vörðu á Bláfellshálsi. Þetta tiltekur úrskurðarnefndin sem annmarka á ákvörðuninni og tekur þar með undir kröfu Landverndar um að umhverfismeta hefði átt stærri hluta leiðarinnar. Þrátt fyrir þessa annmarka fellir úrskurðarnefndin ákvörðun Skipulagsstofnunar ekki úr gildi þar eð nefndin telur að umhverfisáhrif af hinum 2,9 km bút verði ekki umtalsverð. 

Með úrskurði sínum tekur úrskurðarnefndin af skarið með það sem kallað hefur verið „pylsuskurður“, eða „salami slicing“ á ensku, og hafnar alfarið slíkum vinnubrögðum Vegagerðarinnar og samþykki Skipulagsstofnunar á þeim. Í þessu felst mikilvæg viðurkenning á gildi umhverfismatslöggjafarinnar hérlendis.

UUA urskurdur_Blaskogabyggd_framkvaemdaleyfi Kjalvegur_mal 90 fra 2015.pdf
UUA urskurdur_Skipulagsstofnun MAU kaera_mal 83 fra 2015.pdf
Tögg
DSC_0379.JPG 

Vista sem PDF

 

Stöndum vörð um náttúru Íslands

Taktu afstöðu og vertu með!

Leita í fréttumÞátttaka í ákvarðanatöku

2020-Halendi-islands-Chris-Burkard.jpg
Landvernd styður hugmyndir um Hálendisþjóðgarð og Þjóðgarðastofnun
Landvernd styður hugmyndir um Hálendisþjóðgarð og Þjóðgarðastofnun en nauðsynlegt er að koma í veg fyrir uppbyggingu orkuvera og miðlunarlóna á hálendinu enda skerðir það verðmæti svæðisins og er í trássi við náttúruverndarlög og alþjóðlegar skilgreiningar á þjóðgörðum.