Stjórnsýslukærur

Landvernd leitast við að hafa áhrif á stefnumótun og ákvarðanatöku í umhverfismálum með því að senda inn umsagnir um frumvarpsdrög, þingmál, skipulagsáætlanir, einstakar framkvæmdir og margvíslega áætlanagerð sem viðkemur umhverfismálum.

Haustfréttabréf Bláfánans

Salome Hallfreðsdóttir    2.10.2013
Salome Hallfreðsdóttir

Metár Bláfánans á Íslandi

Árið 2013 er metár Bláfánans á Íslandi og var Bláfáninn dreginn að húni á sjö stöðum á landinu. Þetta er mesti fjöldi Bláfánahandhafa öll þau 11 ár sem verkefnið hefur verið rekið á Íslandi. Við á Landvernd erum afar stolt af þessum árangri og því góða samstarfi sem við höfum átt við sveitarfélögin og rekstraraðila á landinu. Við stefnum að því að efla verkefnið enn frekar hér á landi og hlökkum til að takast á við það.

Þeir sem hlutu Bláfánann á árinu eru smábátahafnirnar í Stykkishólmi, á Borgarfirði eystri, í Kópavogi og á Patreksfirði, baðstrendurnar Ylströndin í Nauthólsvík og Langisandur á Akranesi og baðstaðurinn Bláa lónið.

Ársfundur Bláfánans og endurskoðun Bláfánaveifu

Ársfundur Bláfánans verður haldinn núna um miðjan október þar sem verkefnisstjórar allra landa sem taka þátt í verkefninu hittast og vinna í þágu verkefnisins. Sophie Bachet, verkefnisstjóri Blue Flag International, heimsótti Bláfánastaðina á Íslandi í sumar og sinnti erlendu eftirliti. Við á Landvernd hittum Sophie á fundi á meðan hún var á landinu og settum fram þá tillögu að Bláfánaveifan yrði endurskoðuð á næsta ársfundi. Okkur á Landvernd hefur þótt tilefni til þess að efla veifuna enn frekar, ekki síst vegna þess að hvalaskoðun hefur eflst mikið hér á landi undanfarin misseri og verkefnið er frábært tæki til góðrar samvinnu við ferðaþjónustuna í þágu umhverfisverndar. Bláfánanum á Íslandi hefur verið falið að leiða vinnuhóp um þetta á ársfundi Bláfánans núna í október og hlökkum við að sjálfsögðu til að takast á við það verkefni.

Þess má geta að á árinu 2013 voru það hvalaskoðunarfyrirtækin Elding í Reykjavíkurhöfn, Sérferðir í Reykjavíkurhöfn og Ambassador á Akureyri sem flögguðu veifunni. Fleiri hafa sýnt henni áhuga og stefna á að flagga á næsta ári.

Samstarf við nýja þátttakendur, fréttaskrif og myndasafn

Við höldum ótrauð áfram því markmiði að efla Bláfánann enn frekar og stefnum að því að hefja samstarf við að a.m.k. þrjá nýja Bláfánastaði á næstunni. Okkur á Landvernd hefur þótt mikilvægt að efla kynningu Bláfánans út á við og stefnum að því að senda fréttagreinar í öll fjórðungsblöðin innan skamms. Við höfum hafist handa við að safna saman myndum frá Bláfánastöðum landsins og höfum búið til sérstakt Bláfánamyndasafn á myndasíðu Landverndar. Við yrðum afar þakklát ef þið eigið einhverjar myndir til að senda okkur af Bláfánastöðum, hvort sem það er af Bláfánaflöggun, daglegu amstri, aðstöðu og aðbúnaði staðanna eða náttúru. Einnig væri gaman að fá myndir af skipum sem flagga Bláfánaveifunni. Vinsamlegast sendið myndirnar á blafaninn@landvernd.is.

Hægt er að skrá sig á póstlista Bláfánans með því að senda póst á netfangið blafaninn@landvernd.is

Tögg

Vista sem PDF

Leita í kærum

 

Landvernd eru frjáls félagasamtök sem starfa
að umhverfismálum. 
Taktu afstöðu og vertu með!