Stjórnsýslukærur

Landvernd leitast við að hafa áhrif á stefnumótun og ákvarðanatöku í umhverfismálum með því að senda inn umsagnir um frumvarpsdrög, þingmál, skipulagsáætlanir, einstakar framkvæmdir og margvíslega áætlanagerð sem viðkemur umhverfismálum.

Ný heimasíða, til varnar Hengilssvæðinu - 9. nóvember

Landvernd    15.10.2008
Landvernd

Ný heimasíða vegna Bitruvirkjunar, www.hengill.nu, hefur verið opnuð. Smellið hér til þess að fara á síðuna.

Enn ein náttúruperlan undir fallöxina?
Frestur til að senda Skipulagsstofnun athugasemdir rennur út 9. nóvember.

Áhugasamir einstaklingar um verndun íslenskrar náttúru hafa tekið höndum saman um að vekja almenning til vitundar um virkjanaáætlanir á einu fegursta svæði landsins, rétt við bæjardyr höfuðborgarinnar, Helgilssvæðinu. Fyrirhugað er að reisa þar svokallaða Bitruvirkjun sem samkvæmt áætlun á að rísa rétt austan við Ölkelduháls.

Hengilssvæðið hefur lengi verið ein helsta útivistarparadís íbúa höfuðborgarsvæðisins og er skilgreint sem útivistarsvæði. Þetta svæði er eitt örfárra þar sem hægt er að ganga um í friði og ró og njóta ótrúlega fjölbreyttrar náttúrufegurðar. Samkvæmt matsskýrslu Norðuráls á nú að breyta þessu svæði í iðnaðarsvæði, til öflunar raforku fyrir hugsanlegt álver fyrirtækisins í Helguvík.

Ein helsta tekjulind Íslendinga nú er ferðaþjónusta og fer vaxandi. Erlendir ferðamenn koma fyrst og fremst til Íslands til að njóta þeirrar náttúrufegurðar sem landið hefur upp á að bjóða og standa á öndinni yfir því sem við þeim blasir. Hengilssvæðið er einn þessara staða og vinsælt að fara þangað í dagsferðir með erlenda ferðamenn, ýmist gangandi eða á hestbaki.

Framkvæmdaraðili Bitruvirkjunar, Orkuveita Reykjavíkur, er jafnframt sá aðili sem lét framkvæma umhverfismatið og ber kostnað af því. Umhverfismat sem er framkvæmt og kostað af hagsmunaaðila getur aldrei verið marktækt. Þessu fyrirkomulagi þarf að breyta. Því er harðlega mótmælt að stórfyrirtækjum verði heimilað að að spilla náttúru í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og lagt er til að svæðið verði friðað til frambúðar.

Gerð er athugasemd við kynningarferli og frest til athugasemda. Þessar framkvæmdir skerða nánasta umhverfi og lífsgæði ríflega helmings íslensku þjóðarinnar. Hafa ber víðtækan og lýðræðislegan vettvang og opið samráð um framkvæmdirnar. Sex vikna frestur til athugasemda er allt of skammur og allt kynningarferlið til þess gert að sem fæstir veiti málinu athygli og hafi skoðanir á því.

Hópurinn hefur opnað heimasíðu til að vekja Íslendinga til vitundar um virkjanaáætlanir á einu verðmætasta svæði landsins. Á vefslóðinni www.hengill.nu, sem er einkaframtak áhugasamra einstaklinga, eru meðal annars upplýsingar og myndir af svæðinu, margvíslegur fróðleikur um fyrirhugaðar framkvæmdir og afleiðingar þeirra, auk uppkasts að bréfi sem nota má til að senda inn athugasemdir.

Athygli er vakin á því, að frestur til að skila inn athugasemdum til Skipulagsstofnunar

rennur út 9. nóvember nk., svo hafa þarf hraðar hendur.

Nánari upplýsingar veitir:
Petra Mazetti í síma 892 1340
petram@simnet.is
www.hengill.nu

Tögg

Vista sem PDF

Leita í kærum

 

Landvernd eru frjáls félagasamtök sem starfa
að umhverfismálum. 
Taktu afstöðu og vertu með!