Stjórnsýslukærur

Landvernd leitast við að hafa áhrif á stefnumótun og ákvarðanatöku í umhverfismálum með því að senda inn umsagnir um frumvarpsdrög, þingmál, skipulagsáætlanir, einstakar framkvæmdir og margvíslega áætlanagerð sem viðkemur umhverfismálum.

Nýárskveðja formanns

Landvernd    1.1.2012
Landvernd
Kæru félagsmenn og aðrir velunnarar Landverndar. 

Nýliðið ár var viðburðaríkt hjá Landvernd. Tveir nýir starfsmenn komu til starfa hjá samtökunum, farið var í fjölda gönguferða um háhitasvæði á vegum samtakanna og Ferðafélags Íslands, Kvennaskólinn varð 200. skólinn til að skrá sig til þátttöku í Skólum á grænni grein og umhverfisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra skrifuðu undir þriggja ára samning um fjárhagslegan stuðning við verkefnið. Samtökin fengu veglegan styrk í gegnum European Outdoor Conservation Association sem nýttur verður til að stuðla að sjálfbærri ferðamennsku á jarðhitasvæðum með aukinni fræðslu um sérstöðu þeirra, verndargildi og öryggismál. Ljóst er að verkefnið mun einnig njóta ríkulegs stuðnings frá ýmsum aðilum hér á landi, t.d. tilkynnti iðnaðarráðherra nýverið um stuðning við verkefnið. Við njótum svo þeirrar gæfu að Sveinbjörn Björnsson, gjaldkeri Landverndar og fyrrverandi rektor Háskóla Íslands, hefur tekið að sér að leiða þetta verkefni fyrir samtökin. 

Landvernd hefur sent frá sér yfirlýsingar um fjölmargt á liðnu ári, þar á meðal um afstöðu Orkuveitu Reykjavíkur til flokkunar Bitru samkvæmt Rammaáætlun, um ákvörðun innanríkisráðherra um að hlífa Teigsskógi, um friðlýsingu Dimmuborga og Hverfjalls, um tillögur stjórnlagaráðs og um rannsóknarleyfi Orkustofnunar í Grændal. Þá eru umsagnir ársins vegna þingmála og skipulagsmála sveitarfélaga taldar í tugum og mörg álit hafa verið gefin frammi fyrir þingnefndum. Lang umfangsmesta umsögnin fjallaði um drög að þingsályktunartillögu um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða (rammaáætlun). Þrettán náttúruverndarfélög sameinuðust um gerð umsagnarinnar. Að sögn góðs félaga með áralanga reynslu af náttúruverndarstarfi var um tímamót að ræða: ,,Það er að rætast draumsýn mín um þá nánu samstöðu og samvinnu umhverfisog náttúruverndarsamtaka sem er svo brýnt að efla.“ Ég tek heilshugar undir þessi orð og vona að þetta árangursríka starf sé upphaf að nánara samstarfi innan náttúruverndarhreyfingarinnar í landinu. 

Árið 2012 verður ekki síður viðburðaríkt hjá Landvernd en það ár sem nú var að líða. Gera þarf lagfæringar á Alviðru, endurnýja heimasíðu samtakanna, fjölga félagsmönnum, halda fræðslufundi, sinna Grænfána- og Bláfánaverkefnunum, endurskoða lög samtakanna, stofna ungliðahreyfingu, afla fjár og svo mætti lengi telja. Þeir sem hafa áhuga á að leggja hönd á plóg eru hvattir til að hafa samband við mig í síma eða með tölvupósti á netfangið gudmundur@landvernd.is. Ég minni á að samtök eins og Landvernd byggja tilveru sína á þátttöku og framlagi félagsmanna sinna. 

Ég vil vekja sérstaka athygli á Grænavatnsgöngu 8. janúar næstkomandi til minningar um Sigurð Þórarinsson jarðfræðing, en þann dag verður öld liðin frá fæðingu hans. Þannig á að heiðra Sigurð fyrir frumkvæði hans á sviði náttúruverndar og minna um leið á að þörfin fyrir náttúruvernd er ekki síðri nú en áður. Ég hvet alla til að mæta í gönguna, en hægt er að nálgast upplýsingar um hana á heimasíðu Landverndar. 

Sigurður Þórarinsson skrifaði þessi vísu orð í samantekt um fossa á Íslandi fyrir rúmum þrjátíu árum: ,,Því er nú mjög á lofti haldið, og vissulega með veigamiklum rökum, að í fossum landsins búi nokkur af framtíð þjóðar okkar, er byggist á þeim verðmætum sem mæld eru í kílóvattstundum. En þar við liggur einnig brot af framtíðarhamingju þjóðarinnar, að hún gleymi ekki að í fossum landsins búi einnig verðmæti sem ekki verða metin til fjár, en mælast í unaðsstundum.“ 

Kæru félagsmenn og velunnarar Landverndar! Ég vona að þið hafið átt fjölmargar unaðsstundir í íslenskri náttúru á liðnu ári. Ég upplifði eina slíka stund á sólríkum degi á Stórhöfða í Vestmannaeyjum. Meðfylgjandi mynd var tekin af dóttur minni við það tilefni og mig langar til að deila henni með ykkur því að hún kallast svo skemmtilega á við orð sem Kristinn Ólafsson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum 1924- 1928, ritaði til minningar um skáldið Örn Arnarson, orð sem lýsa svo vel þeirri ljúfu tilfinningu sem fylgir tengslum við náttúruna: 

,,Flestir þeir, sem sjá Vestmannaeyjar um sumardag, er sólin skín á sundin blá og aldan leikur við unnarstein, verða bergnumdir af allri þeirri fjalladýrð og hamraprýði, allt þakið dökkgrænum gróðri frá efstu eggjum út á ystu brún, morandi af fuglalífi og litaskrauti. Og þó er allt þetta næsta bragðdauft hjá þeim rammaslag sem Ægir karl kveður þar í versta veðra ham. En það þekkir enginn, sem ekki hefur séð þetta og heyrt með eigin augum og eyrum. Sá maður, sem dvalið hefur langdvölum í Vestmannaeyjum, gleymir þeim aldrei, hvar sem hann velkist. Þau eylönd vaka í hjarta hans í ævintýraljóma, sem aldrei fellur á.“ 

Með ósk um fjölda unaðsstunda á árinu 2012 og þökk fyrir samstarfið á liðnu ári, 

Guðmundur Hörður Guðmundsson, formaður Landverndar

Tögg

Vista sem PDF

Leita í kærum

 

Landvernd eru frjáls félagasamtök sem starfa
að umhverfismálum. 
Taktu afstöðu og vertu með!

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum (umsögn)
19.12.2012

Umsögn um tillögu Skipulagsstofnunar að landsskipulagsstefnu
20.11.2012

Umsögn við tillögur að nýjum lögum um skógrækt og nýjum lögum um landgræðslu
29.8.2012

Athugasemdir Landverndar vegna draga að tillögu að matsáætlun Vestfjarðavegar
13.8.2012

Kæra útgáfu byggingarleyfis á Úlfarsfelli
29.6.2012

Áherslur Landverndar vegna stefnumótunar um lagningu raflína í jörð
14.6.2012

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum (EES-reglur, aukin matsskylda o.fl.)
5.4.2012

Lagafrumvarp um lækkað eldsneytisverð
26.3.2012

Umsögn um frumvarp um breytingu á lögum um meðhöndlun úrgangs
16.3.2012

Umsögn um tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun 2011-2012
29.2.2012

Umsögn um lög um varnir gegn mengun hafs og stranda
28.2.2012

Umsögn um drög að lögum um loftslagsmál
20.2.2012

Umsögn um deiliskipulag um Þeistareyki
30.1.2012

Umsögn um hvítbók
15.12.2011

Drög að skipulagsreglugerð
1.12.2011

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á náttúruverndarlögum
30.11.2011

Umsögn um þingsályktunartillögu um stofnun þjóðgarðs við Breiðafjörð
30.11.2011

Umsögn um þingsályktunartillögu um stofnun Hofsjökulsþjóðgarðs
30.11.2011

Frumvarp um breytingu á lögum um upplýsingarétt um umhverfismál
24.11.2011

Umsögn um drög að aðalskipulagi Mýrdalshrepps
22.11.2011

Umsögn um drög að Svæðisskipulagi Suðurnesja 2008-2024
17.11.2011

Umsögn um tillögu til þingsályktunar um eflingu græna hagkerfisins á Íslandi
11.11.2011

Umsögn um drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum
9.11.2011

Gengið um Þingvelli á Degi íslenskrar náttúru
14.9.2011

Guðmundur Ingi ráðinn framkvæmdastjóri
14.9.2011

Fjöll og fjölskrúðug hverasvæði Kerlingarfjalla
30.6.2011

Ályktanir aðalfundar Landverndar
27.5.2011

Fjölmennur aðalfundur Landverndar
27.5.2011

Kynning á frambjóðendum til stjórnar Landverndar 2011
24.5.2011

Fyrsta ferð sumarsins 29. maí - Reykjanes, Reykjanestá og Gunnuhver
23.5.2011

Efni aðalfundar 2011 - Umgengni við landið
18.5.2011

Tilkynning frá uppstillingarnefnd
17.5.2011

Aðalfundur 26. maí að Nauthóli
9.5.2011