Stjórnsýslukærur

Landvernd leitast við að hafa áhrif á stefnumótun og ákvarðanatöku í umhverfismálum með því að senda inn umsagnir um frumvarpsdrög, þingmál, skipulagsáætlanir, einstakar framkvæmdir og margvíslega áætlanagerð sem viðkemur umhverfismálum.

Takmarka verður útgáfu rannsóknarleyfa

Landvernd    10.9.2006
Landvernd

Ávarp Ingimars Sigurðssonar skrifstofustjóra í umhverfisráðuneytinu á ráðstefnu Landverndar um Reykjanesskagann.

8.9.2006

Í máli Ingimars kom fram að vegna aukinnar orkuþarfar í tengslum við stóriðju sé nú mikil ásókn í rannsóknar- og nýtingarleyfi á svæði sem hafi mikið verndargildi. Nú standi yfir 2. áfangi rammaáætlunar um virkjanakosti þar sem verndargildi háhitasvæða sé metið. Áformað sé að vinna að þessu á næstu árum þannig að hægt verði að taka afstöðu til framhaldsins á árunum 2009 eða 2010. Á meðan, segir Ingimar, er mikilvægt að ekki sé ráðist í framkvæmdir á þeim háhitasvæðum sem ekki hafi verið metin út frá verndargildi. Því sé ljóst að takmarka verði útgáfu rannsóknarleyfa jafnt á Reykjanesi sem og annars staðar á landinu á meðan á verkefninu stendur.

Ávarp Ingimars má lesa í heild sinni hér á að neðan.

Ágætu ráðstefnugestir.

Ég vil byrja á því að færa ykkur kveðjur Jónínu Bjartmarz, umhverfisráðherra, sem gat ekki komið því við að vera hér í dag þar sem hún sækir nú fund norrænu samstarfsráðherranna í Noregi.

Það er vel til fundið hjá Landvernd að halda ráðstefnu um Reykjanesskagann með hliðsjón af þeim fjölþættu nýtingarmöguleikum sem svæðið býður upp á og tengist náttúruvernd, útivist, ferðaþjónustu og nýtingu jarðvarma og jarðefna. Mikil ásókn er í rannsóknaleyfi og nýtingarleyfi á þessu svæði og nágrenni, en svæðið er jarðsögulega stórmerkilegt og nýtur ýmiss konar verndar, m.a. sem fólkvangur, þ.e.a.s. Reykjanessfólkvangur. Einnig má nefna að í náttúruverndaráætlun sem samþykkt var á Alþingi 2004 er m.a. ályktað að friðlýsa Eldvörp - Hafnaberg á Reykjanesi. Það er því ljóst að verndargildi Reykjanesskagans er metið hátt. Vegna aukinnar orkuþarfar í tengslum við stóriðju hefur sérstaklega verið horft til þessa svæðis og er því nauðsynlegt að mörkuð verði stefna um verndun þess og nýtingu. Við gerð rammaáætlunar um virkjunarkosti sem stóð yfir á árunum 1999-2003 var ákveðið að leggja fyrst og fremst áherslu á vatnsaflskosti. Þó var að hluta til fjallað um jarðhita og skilað niðurstöðum m.a. um háhitasvæði á Reykjanesi og nágrenni en gengið út frá því að háhitasvæðin skyldu tekin til sérstakrar athugunar í 2. áfanga áætlunarinnar. Verkefnisstjórn 2. áfanga var skipuð í lok árs 2004 og hefur verið ákveðið í tengslum við 2. áfanga að þar verði fyrst og fremst lögð áhersla á endurskoðun mats á stærri vatnsorkukostum með hliðsjón af nýjum virkjanamöguleikum með breyttri tilhögun, endurskoðun jarðhitavirkjana með það að markmiði að ná heildstætt utan um alla þekkta kosti, en til þess þarf að ljúka undirbúningsrannsóknum á mörgum nýjum háhitasvæðum, þróa betur aðferðir við mat á náttúrufari á jarðhitasvæðum og endurbæta aðferðir við mat á landslagi.

Eitt stærsta verkefnið er því að meta verndargildi háhitasvæða með það fyrir augum að fá fram heildstæðri mynd þannig að hægt verði að taka ákvörðun um hvað beri að vernda. Þetta tengist líka verkefninu um aðferðir við mat á landslagi. Vinna við þessa þætti er þegar hafin á vegum verkefnisstjórnar 2. áfanga og er áformað að unnið verði að þessu á næstu árum þannig að hægt verði að taka afstöðu til framhaldsins á árunum 2009 eða 2010. Á meðan er mikilvægt að ekki sé ráðist í framkvæmdir á þeim háhitasvæðum sem ekki hafa verið metin út frá verndargildi. Það er því ljóst að takmarka verður útgáfu rannsóknarleyfa jafnt á Reykjanesi sem og annars staðar í landinu á meðan á verkefninu stendur og áður en ákvörðun hefur verið tekin um vernd í framhaldi af því.

Sem kunnugt er veitir iðnaðarráðuneytið lögum samkvæmt leyfi til rannsókna og nýtingar á orku og vinnslu jarðefna á háhitasvæðum sem annars staðar en ber að leita umsagnar umhverfisráðuneytisins áður en leyfi er veitt. Umhverfisráðuneytið hefur haft það sem meginreglu að leita eftir áliti hjá Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun þegar beiðnir koma um slík leyfi, enda að mörgu að hyggja í tengslum við útgáfu þeirra, sem varðar lífríkið og jarðminjar. Í ráðuneytinu liggja nú fyrir óskir frá Hitaveitu Suðurnesja um tilraunarannsóknir í Trölladyngju og í Krísuvík með nýtingu í huga. Áðurnefndar stofnanir ráðuneytisins hafa gefið álit í samræmi við hlutverk þeirra og eru málin nú til afgreiðslu í umhverfisráðuneytinu.

Á árinu 2003 var sótt um tilraunarannsóknaleyfi í Brennisteinsfjöllum sem umhverfisráðuneytið lagðist gegn með tilteknum rökum fyrr á þessu ári.

Ágætu ráðstefnugestir. Ákaflega mikilvægt er að sátt náist um vernd og nýtingu á Reykjanesi. Þar tel ég að undirbúningur við gerð 2. áfanga rammaáætlunar skipti verulegu máli. Hafa ber í huga að sumt verður ekki aftur tekið og því getur verið betra að staldra við og gefa sér tíma áður en ákvarðanir eru teknar. Málin eru í farvegi og er þess að vænta að á næstu árum verði hægt að taka afstöðu til þess hvaða háhitasvæði beri að varðveita út frá verndargildi þeirra.

Að þessum orðum sögðum set ég þessa ráðstefnu og vænti þess að hún verði ein af vörðunum á þeirri leið að ná farsælli niðurstöðu um vernd og nýtingu á Reykjanesskaga.

Tögg

Vista sem PDF

Leita í kærum

 

Landvernd eru frjáls félagasamtök sem starfa
að umhverfismálum. 
Taktu afstöðu og vertu með!