Fréttir Stjórnarstarf og aðalfundir Aðalfundur Landverndar 13. maí og Græðum Ísland hleypt af stokkunum 5.5.2017 Guðmundur Ingi Guðbrandsson 5.5.2017 Guðmundur Ingi Guðbrandsson Stjórn Landverndar minnir á aðalfund samtakanna laugardaginn 13. maí n.k. kl. 10-14:30 í Frægarði í Gunnarsholti á Rangárvöllum. Eftir fundinn verður nýju sjálfboðaliðaverkefni Landverndar, Græðum Ísland eða CARE á ensku, hleypt af stokkunum við Þjófafoss í Þjórsá. Fundarmönnum er af þessu tilefni boðið að taka þátt í landgræðslu á svæðinu og þiggja grillaðar pylsur og léttar veitingar að því loknu. Nauðsynlegt er að skrá sig hér á aðalfundinn í síðasta lagi 10. maí n.k. svo áætla megi stærð rútu og aðföng fyrir mat. Dagskrá aðalfundar, samþykktir Landverndar og önnur fundargögn má finna hér að neðan. Boðið verður upp á rútuferð frá Reykjavík og leggur rútan af stað frá BSÍ kl. 8:00 og kemur aftur til Reykjavíkur að fundi og landgræðslustörfum loknum um kl. 18:45. Þau sem hyggjast sækja fundinn á eigin vegum geta áttað sig á staðsetningu Frægarðs í Gunnarsholti hér að neðan og í viðhengi. Vakin er athygli á tillögu um sameiningu Landverndar og Framtíðarlandsins sem finna má í fundargögnum. Á fundinum verður auk almennra aðalfundarstarfa kynnt drög að stefnumörkun Landverndar um vindorkuver, fjallað um Hreinsum Ísland, nýtt strandhreinsiverkefni samtakanna og kynntar niðurstöður í hugmyndasamkeppni um framtíð Alviðru í Ölfusi. Eftir fundarslit mun Dr. Árni Bragason landgræðslustjóri flytja erindið Landgræðsla – hvert stefnum við? Í stjórn Landverndar sita tíu manns. Formaður er kosinn í sérstakri kosningu. Á aðalfundi 2017 verður kosið um formann stjórnar og fjóra stjórnarmenn til tveggja ára. Allir kjörgengir félagsmenn geta boðið sig fram á fundinum. Þess skal getið að núverandi formaður samtakanna, Snorri Baldursson, hyggst ekki gefa áfram kost á sér. Þá hafa tveir aðrir stjórnarmenn ákveðið að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Kæru félagsmenn! Við hvetjum ykkur til að mæta og hafa áhrif á stefnu og störf samtakanna. Þá minnum á að þau sem enn skulda félagsgjald verða að hafa greitt þau fyrir aðalfund til að tryggja sér atkvæðisrétt og kjörgengi á fundinum. Jafnframt hvetjum við ykkur til að taka nýja félaga með á fundinn. Hægt er að greiða félagsgjöld á fundinum. Líkt og áður segir verður nýju sjálfboðaliðaverkefni Landverndar í landgræðslu Græðum Ísland (CARE) hleypt af stokkunum eftir fundinn við Þjófafoss í Þjórsá. Eru félagsmenn sérstaklega hvattir til að taka þátt í þeim viðburði og landgræðslustörfum á eftir. Með von um að sjá ykkur sem flest, f.h. stjórnar Landverndar, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar. Log Landverndar 2012_samthykkt a adalfundi 12mai2012.pdf Tillaga a adalfundi Landverndar_Sameining Landverndar og Framtídarlandsins_LOKA.pdf Dagskra_Adalfundur Landverndar 2017_LOKA.pdf Tögg 2017 aðalfundur CARE Vista sem PDF